Hrossin á búinu sem hafa verið í tamningu í vetur eru nú þessa dagana að fara í kynbótadóm. Eingöngu hryssur koma til dóms því nær allir hestar búsins eru geltir.
Fyrstar í dóm fóru 5-vetra hryssurnar, Tildra og Þota, sem komu undan merum sem búið leigði frá Kjarri og eru því skráðar úr ræktun Helga Eggertssonar. Þær eru undan Stála frá Kjarri og Stjörnu og Auðnu frá Kjarri. Tildra var sýnd af Ragnheiði Samúelsdóttur og fór í góðan dóm. Hún fékk 8,40 fyrir hæfileika og 7,89 fyrir byggingu og er því með 8,21 í aðaleinkunn. Hún á talsvert eftir inni og verður gaman að fylgjast með henni á komandi landsmóti. Hin klárgenga Þota, sem Jóhann Kristinn Ragnarsson sýndi, var langt undir væntingum og endaði undir 7,80 í aðaleinkunn sem er svipað og hún hlaut í dómi fjögurra vetra.
Í næstu viku fara í dóm á Selfossi,5 vetra hryssurnar, Ópera frá Litlu-Sandvík og Brák frá Hrauni, sem koma vel undan vetri.