Þessar vikurnar eru folöld búsins að koma í heiminn. Sól frá Hvoli, sem er ein af ræktunarmerum okkar, kastaði í vikunni bleikálóttum hesti og er hann undan Stála frá Kjarri. Heimasætan, eða afabarnið, er hér að taka fyrstu tamningatökin.
Sól verður leidd undir Kiljan frá Steinnesi, að þessu sinni. Undan henni eru komin tvö á tamningaaldur, Selja og Sæla, en þær hafa sýnt fljótt mikla getu, gott geðslag og mikinn fótaburð. Selja, sem er undan Óm frá Kvistum, var sýnd 4 v. sl. vor og fékk þokkalegan hæfileikadóm, en lakari byggingadóm. Hún fékk m.a. 8 fyrir tölt, 8 fyrir skeið, 8,5 fyrir vilja og geðslag og 8 fyrir fegurð í reið. Hin klárgenga Sæla, sem er undan Krák frá Blesastöðum, verður sýnd í vor.