Vorkoman
Eftir vindasaman og leiðinlegan vetur er nú með hækkandi sól tekið að vora. Framundan er skemmtilegur tími í garðyrkjunni, vinnsla á garðlöndunum og sáðning. Svo er „uppskerutími“ hrossaræktarinnar, þegar folöldin koma í heiminn, en við eigum von á 6 folöldum þetta árið. Við munum einnig mæta með m.k. 4 hross á kynbótasýningar í maí og júní, en þar er sett mælistika á getu unghrossanna sem eru búin að vera í tamningu sl. tvo vetur og vonandi verða sýningarhæf trippi á 4 vetri sem gætu bæst við.
Annars er hér allt með venjubundnum hætti. Starfsmenn búsins vinna annars vegar við snyrtingu og pökkun á rófum og hins vegar hreinsun og pökkun á sölvum. Rófur frá síðasta hausti verða væntanlega til fram á sumar enda varð uppskeran með besta móti.
Margt fleira er að sjálfsögðu hér að vinna svo sem að fóðra útiganginn og trippin sem inni eru ásamt ýmiskonar viðhaldsvinnu á mannvirkjum og vélum.
Nú fyrsta apríl hófst stangveiðitímabilið í Ölfusá og Varmá og Þorleifslæk. Á fyrsta degi var mokveiði í Varmá og fengust allt að 12 punda fiskar í ánni. Eins og kunnugt er hefur Stangveiðifélag Reykjavíkur Varmá og Þorleifslæk á leigu þetta árið og er þangað að leita ef menn vilja í ána.