Sumarið 2015

Nú þegar sumri er tekið að halla og litið er yfir stöðuna, eftir sérlega kalt vor sem markað hefur spor sín í búskapinn, þá liggur það fyrir að rófuspretta er a.m.k. tveimur vikum á eftir meðalári.  Síðasti mánuður hefur verið þokkalega hlýr en þurrkar há nú sprettu garðagróðurs hér á s-vestur horninu en ef haustið verður gott getur uppskera tosast upp í að ná slakri meðaluppskeru.  Rófurnar geta bætt ótrúlega miklu við sig í september við góðar aðstæður þegar kálið hefur náð fullum þroska.

Nú um verslunarmannahelgina var farið í sölvafjöru með hátt í 30 manns og átti að grípa upp mikla uppskeru við frábærar aðstæður í  góðri fjöru og kyrrum sjó.  Sölin voru hins vegar ekki eins og þau eiga að vera, virtust öll upplituð, ljósbrún, gul og græn, líkast sölvum í Breiðafirði. Var því ekkert tínt að þessu sinni.  Þörungafræðingur hefur skoðað aðstæður og telur að ástæðan sé næringarskortur, jafnvel vöntun á köfnunarefni.  Umræddur fræðingur, Gunnar Ólafsson hefur verið falið að rannsaka nánar ástæður þessara breytinga.  Hann gefur vonir um að ástandið gæti lagast næsta mánuðinn og verður því stefnt á fjöru í stórstraum um næstu mánaðarmót.

Í sumar hefur Ragnheiður Samúelsdóttir, Ragga Sam eins og hún er kölluð, verið með aðstöðu hér á Hrauni ásamt aðstoðarkonu sinni Herdísi. Ragga hefur verið með 7-8 hross frá búinu auk annarra hrossa í þjálfun í sumar. Mest eru þetta geldingar, sem hún frumtamdi sl. haust, auk eldri reiðhesta sem eru í sölumeðferð. Sala hefur gengið vel og hefur Ragga nýverið selt 2 hross, gelding undan Urði og Ægi og aðal reiðhest búsins undan Könnun og Þyrni. 

Þrjár fimm vetra merar frá búinu, Snös, Þrótt og Sæla, eru skráðar í kynbótadóm nú síðsumars og er eins og áður spennandi að vita hvernig fer.  Ein 4 vetra, Skör frá Hrauni, fór í dóm í vor með 7,97.

Lífið á bænum

hk me egil  kanna.jpg