Sumarlok í sveitinni

20150830 121619Vetur í nánd og uppskerustörfum lokið.  Allar rófur komnar í hús þrátt fyrir ótrúlega þráláta úrkomu.  Uppskeran náði að vera í meðallagi og réðu þar úrslitum hlýindakaflar í ágúst og september. Farið var aftur í sölvafjöru um mánaðarmót ágúst – sept. og náðist afar góð uppskera, aðeins í einni ferð.  Sölin voru orðin eðlileg og varð því mikil breyting á frá því í byrjun ágúst.  Engir upplitaðir blettir á þeim og virðist sem næringarefni sjávarins hafi náð jafnvægi sem er einn af grundvallarþáttum er varðar útlit og bragðgæði þeirra.

Laxveiðin í net hjá okkur í Ölfusá var afar léleg þrátt fyrir ágæta fiskgengd í ána. Ekkert jökulvatn rennur orðið í vesturál árinnar og eru núlifandi Hraunsbændur orðnir langeygir eftir breytingum á rennsli hennar og hugsa til góðu tímanna í veiðinni, frá 1960 – 1980, þegar áin rann mikið til um álinn að vestan.  Brúin yfir ósinn hefur vafalítið neikvæð áhrif á veiðina þar sem hún var þrengd frá vesturbakkanum.

Það komu góðir neistar í stangveiðina seinnihluta sumars og virðist sem ætið í ósnum hafi lifnað við eftir nokkur mögur mögur ár.  Sjóbirtingsveiðin ræðst að miklu leiti af ástandi ætis (aðallega sandsílis) í ósnum því þar heldur fiskurinn til meðan æti er til staðar áður en hann gengur upp á sínar hrygningarstöðvar.

Uppskera hrossaræktarinnar varð heldur rýrari en væntingar stóðu til.  Hryssan Snös, sem er afkvæmi Urðar frá Hrauni og Kletts frá Hvammi hlaut fyrstu verðlaun, með aðaleinkunnina 8,11. Þar með á búið nú níu og hálfa (Þrá frá Hofi sameign) fyrstuverðlaunamerar, en 8 af þeim var haldið í ár.

Sala hrossa hefur gengið vel og er ánægjulegt að finna fyrir auknum áhuga og tiltrú á hrossunum  sem við ræktum hér á búinu.

Lífið á bænum

bylgja og knnun 2008 .jpg