Við áramót
Árið 2015 hefur á margan hátt farið vel með okkur hér á Hrauni, bæði okkur persónulega og rekstrarlega fyrir búið. Rófuuppskera frá 2014 sem seld var á árinu varð auðseljanleg og fékkst gott verð fyrir hana. Eftir óróa á markaðinum fyrir áramót 2014, varð jafnvægi milli eftirspurnar og framboðs þannig að stöðugleiki myndaðist. Mikilvægt er að búa sig undir það að geta geymt rófurnar lengi og verður þessi búgrein ekki rekin með neinu öryggi nema vel takist til með geymslu. Sala á uppskeru 2015 hefur hins vegar gengið illa, lítil sala og verð hefur farið langt niður fyrir skilaverð sl. margra ára. Óljóst er um framhaldið þó framleiðslan á landsvísu sé rétt í meðallagi. Það hefur áður gerst þegar nýir aðilar eru að ryðja sér braut inn á markaðinn þá verða átök og mun þetta ganga yfir eins og venjulega.
Hrossaræktin hefur gengið vel þó árangur kynbótasýninga hafi verið undir væntingum. Ein hryssa komst þó í góð fyrstu verðlaun og aðrar bönkuðu nálægt því. Búið hlaut viðurkenningu hjá Hrossaræktarfélagi Ölfuss fyrir hæst dæmdu 4-vetra hryssu félagmanna sem var Skör frá Hrauni með einkunnina 7.97. Sala hefur gengið vel, þó dýrustu gripirnir sem til sölu eru hafi ekki selst, hafa geldingar búsins selst á verði sem telst vel ásættanlegt. Besta kynbótameri búsins af eldri merunum, Bylgja frá Garðabæ, bankar nú upp á heiðursverðlaunasæti og er þess vænst að þau afkvæmi hennar sem sýnd verða á nýja árinu fleyti henni í heiðursverðlaun fyrir afkvæmi.
Uppskera sölva var við að slá met á sl. ári, sem kallar á öflugra markaðsstarf. Við höfum aldrei þurft að eyða miklu í markaðssetningu á sölvunum, en nú á sl. árum hafa nýir aðilar komið til sögunar og höfum við þurft að mæta þeim með aukinni kynningu á okkar vöru með vísan til meiri gæða og hreinleika. Þessi hollustuvara er eins og aðrar náttúruvörur þannig að auðvelt er að auka neyslu þeirra ef vel tekst til með kynningu þeirra. Sölin hafa þó forskot fram yfir flestar náttúruafurðir þar sem sölin hafa fylgt landanum allar götur frá Agli Skallagrímssyni. Engin vafi er á því að sölin björguðu Agli frá dauða eins og sagan greinir, enda afurð sem björguðu mörgum frá hörgulsjúkdómum og hungri, sérstaklega þegar mestu hörmungar gengu yfir þjóðina, m.a. í móðuharðindunum. Til að upplýsa um fjölbreytt notagildi, eða öllu heldur „neyslugildi“ sölvanna, hefur Sláturfélag suðurlands hafið framleiðslu á vöru sem þeir nefna „Fjörulamb“ sem er lambakjöt kryddað að mestu með sölvum. Fjörulambið hefur fengið afar góðar móttökur og verið mikið notað á grill landsmanna.
Árið 2016 fer vel í okkur Hraunsbændur, enda heilsuhraustir og sprækir. Allt verður þetta sjálfsagt í fasta gamla hjólfarinu, en þó er stefnan að minnka við sig, enda ástæðulaust að fara bullsveittur inn í ellina.
Megi gæfa fylgja ykkur landsmenn á nýju ári og færa ykkur hamingju.