Janúar 2018

Á áramótum er manni  tamt að líta um öxl og gera upp líðandi ár og hugsa til komandi árs. Hér á Hrauni hefur lífið gengið að mestu sinn vana gang, nema að starfsþrek okkar eigendanna  fer þverrandi þannig að búskapurinn hefur skroppið nokkuð saman á árinu . 

Rófnaræktin gekk vel, en umfang hennar mun minna en áður þannig að uppskera 2017 mun seljast upp í febrúar, en uppskera 2016 entist fram í júní. Síðasta ár (uppskera 2016) var erfitt, samkeppni jókst verulega  sem leiddi til verulegrar lækkunar á skilaverði. Nú er markaðurinn í meira jafnvægi og verðið mun betra en áður.

  Hrossaræktin er svipuð að umfangi  og köstuðu 4 merar að þessu sinni,  en afkvæmi Sólar og Kráks fórst stuttu eftir fæðingu í vor. Nú eru folöldin, sem eru öll merfolöld, komin á hús. Þau eru undan Bylgju og Skír, Urði og Draupni og Brák og Skaganum.  Tvö af folöldum frá 2016 voru seld sl. vetur sem eru undan Brák og Hrannari og Bylgju og Konsert frá Hofi. Nú eru nokkur komin í tamningu af árgangi 2013 og 2014 og fara fleiri eftir áramótin. Í sölumeðferð eru Ópera frá Litlu-Sandvík, Tildra frá Kjarri, báðar með góð fyrstu verðlaun í kynbótadómi.  Á árinu voru í fyrsta skipti engin hross frá búinu sýnd í kynbótadómi, aðeins voru sýnd hross úr okkar ræktun sem eru í eigu annarra.  Aðalástæðan er að stefna okkar er að sýna ekki hross á fjórða vetri nema að þau séu verulega góð. Í öðru lagi átti að sýna  Blöku sem er fimmvetra undan Bylgju og Lukkuláka, en hún fékk bólgu í bak og varð að taka hana úr þjálfun sl. vetur.

 Sölvauppskeran var í meðallagi í sumar og var að vanda fjölmennur flokkur skyldmenna og vina sem aðstoðuðu við að tína. Farin var aðeins ein ferð og voru þau síðan þurrkuð deginum eftir.  Eins og áður hefur komið fram hefur eftirspurnin aukist á síðustu árum og gætum við selt meira en gert er, en þessu hefur fylgt aukið álag, því hreinsun og pökkun sölvanna útheimtir mikla vinnu.  Á haustdögum gerðum við samning við Íslenska hollustu um að kaupa öll sölin af okkur eins og þau koma úr þurrkuninni og taka jafnframt við þeim markaði eða viðskiptum sem við höfum haft.  Undan skilið er sérmarkaðir sem við sinnum s.s krydd fyrir SS í fjörulambið og í víngerð.  Íslenska fyrirtækið Hálogi Distillery framleiðir vín sem kryddað er með sölvum og heitir einfaldlega „Söl“.  Íslensk hollusta er fyrirtæki sem starfað hefur í nær 2 áratugi við vinnslu á margskonar afurðum náttúrunnar, s.s. sölvum, fjallagrösum, berjum og mörgum öðrum nytjajurtum úr íslenskri náttúru. Þessi samningur við Íslenska hollustu léttir verulega á álaginu því starfið sem flyst yfir er rúmlega heilt ársstarf.

Lífið á bænum

vnting.jpg