22. júlí 2012
Nú er kærkomin rigning í Ölfusinu, en almennileg suð-austanátt hefur ekki komið hér síðan í apríl. Þurrkar síðustu mánaða hafa komið hér, eins og víða annarsstaðar, illa niður á uppskerunni, og er þá sama hvort talað er um rófusprettu eða heyfeng. Rófur voru sendar hér á markað 10. júlí, fyrr en oftast áður og tókst okkur að vera jafn snemma og þeir sem voru með forræktaðar rófur (rófur sem sáð er í gróðurhúsi og plantað út). Þetta var hægt úr garði sem við höfðum kost á að vera með vökvunarkerfi í.
Kálmaðkur í rófum virðist víða vera svæsinn og varp kálflugunnar vera mun fyrr en áður. Hefðbundnar varnir duga misjafnlega og verður því að grípa til annarra aðgerða ef maðkurinn kemst á skrið. Reikna verður með að þetta kunni að hafa áhrif á framboð á komandi vetri þó erfitt sé að meta það á þessu stigi.
Heyfengur af sandtúnunum hér var aðeins um helmingur af meðalheyfeng, enda brunnu þau illa á köflum. Nú er að vona að væta verði næg svo háin dugi til að heyfengur verði nægur. Afleiðingar þurrka sem þessara á túnin eru varanlegar því sáðgrösin, þá sérstaklega vallafoxgrasið, hverfur og upp koma mun lakari og afkastaminni grastegundir.