Sölvatekja hefur verið stunduð á Hrauni frá alda öðli. Í upphafi höfð til matar heima fyrir og fyrir aðra í skiptum fyrir önnur nyt sem ekki voru fyrir hendi á Hrauni. Fyrir um 60 árum síðan var farið að selja söl, fyrst til einstaklinga og síðar í verslanir. Nú eru söl seld í stórmarkaði, heilsubúðir og veitingahús. Auk þess hefur verið selt til USA þegar gengi var hagstætt, en nú hin síðari ár í litlu mæli annað, aðallega til Danmerkur.
Uppskera
Sölin eru tínd á skerjum vestan Ölfusárósa sem heita Hásteinasker. Tínsla fer fram seinnipart sumars og verður þá að fara saman stórstreymisfjara og vera brimlaust. Sölin eru þurrkuð á klöppum upp af ánni og þegar tíðarfar er erfitt til þurrkunar eru þau vélþurrkuð.
Geymsla
Sölin eru síðan geymd í loftþéttum umbúðum og hreinsuð og pökkuð eftir þörfum. Pakkað er í 70 gr. sérmerkta plastpoka fyrir neytendamarkað.
Sala
Sölin eru seld m.a. í Krónunni Selfossi, Vöruval Vestmannaeyjum, og í Heilsu-búðunum um land allt.
Rannsóknir - innihald
Eftirfarandi birtist í rannsóknarskýrslu, „Söl - rannsóknir á nokkrum þáttum hreinleika og hollustu" frá 1996 sem Árni Snæbjörnsson og Þyrí Valdimarsdóttir stóðu að.
Sjá á : http://saga.bondi.is/wpp/almhand.nsf/id/0705B765283F1D66002564B8005B7B87
Hér fer úrdráttur úr skýrslunni:
Söl fyrr á tímum
Söl (Palmaria palmata) er sú tegund sæþörunga sem hefur verið hvað mikilvægust til manneldis hérlendis, einkum þó fyrr á öldum, enda voru þau eftirsótt til matar. Finna má í heimildum dæmi um sölvaneyslu allt aftur til fyrstu byggðar í landinu og má minna á frásögn Egilssögu í því sambandi. Um mikilvægi sölvatekju fyrr á öldum má nefna að ýmsar jarðir án sölvafjöru áttu ítök í sölvafjörum, sölvafjörur voru gjaldgengar við ítakaskipti, þær voru stundum leigðar öðrum og bændur inn til landsins sóttu oft um langan veg til að kaupa söl. Auk þess að vera góð til matar þóttu söl góð til að lækna ýmsa kvilla, en lækningarmáttur þeirra kann að hafa stafað af því að hátt næringargildi þeirra kom sér vel í fábreyttara og minna úrvali af fæðu en síðar varð. Þá voru söl einnig nýtt sem skepnufóður, bæði til gjafar og beitar. Í "Íslenskum sjávarháttum" eftir Lúðvík Kristjánsson má finna gríðarlegan fróðleik um sölvanytjar á fyrri öldum.
Söl nú á tímumNeysla sölva dróst mjög mikið saman eftir að kom fram á þessa öld og lagðist víða alveg af. Áhugi á þeim hefur hins vegar vaknað á ný á allra síðustu árum, ekki hvað síst vegna þess að þau þykja afar holl og koma auk þess beint úr ómengaðri náttúru. Flestar svokallaðar heilsubúðir versla núorðið með söl, þau eru á boðstólnum í mörgum matvöruverslunum og komnir eru fram sérstakir dreifingaraðilar sem dreifa til smásala. Fyrst og fremst er sölvanna neytt sem nokkurs konar viðbótarfæðu (snakks), en í auknum mæli sem sjálfsagðs þáttar í fjölbreyttni við matargerð eða til skreytingar á mat, bæði á veitingahúsum og í heimahúsum. Full ástæða væri til að gefa út rit með uppskriftum og nýtingarmöguleikum á sölvum til matargerðar.
Söl - útbreiðsla og magnSöl vaxa í fjörumálinu neðan við þangbeltið og niður í þarabeltið, eða á beltinu milli smástraumsfjörumáls og stórstraumsfjörumáls. Þau eru algeng um land allt, þótt mun minna sé af þeim í nýtanlegum mæli við Norður- og Austurland heldur en við Suðvesturland. Þessu veldur trúlega fyrst og fremst miklu meiri sjávarfallamunur við Suðvesturland. Stærstu og samfelldustu sölvafjörurnar eru taldar vera í Árnessýslu og Saurbæ í Dölum.
Mjög erfitt er að áætla hversu mikil sölvatekja gæti orðið, því hvort tveggja er að ekki er vitað um mögulegt heildarmagn og sums staðar eru sölvafjörur lítt aðgengilegar. Í Handbók um hlunnindajarðir á Íslandi eftir Lárus Ág. Gíslason (útg.1982) er ekkert minnst á sölvatekju, en bók Lárusar byggir á fasteignamati frá árunum 1932, 1942 og 1970. Hvort sölvatekja á þessu tímabili er að mestu horfin eða hvort aðrar ástæður ráða því að skráningu vantar skal ósagt látið. Hins vegar má nefna að Árni Magnússon og Páll Vídalín (um 1700), telja að 270 lögbýli hafi einhverja sölvatekju. Í Íslenskum sjávarháttum greinir Lúðvík Kristjánsson frá því að um 1800 hafi árlega fengist 721 vætt af þurrsölvum í Árnessýslu (29.000 kg) og að verðmæti þeirra hafi samsvarað 56 kýrverðum, en sölvasvæðin í Árnessýslu komu næst á eftir Saurbæjarfjöru að stærð.
Í könnun sem Hafrannsóknastofnun gerði á Saurbæjarfjöru á árinu 1978 kemur fram að árleg sölvatekja á um 6 ha svæði við Sölvatanga geti verið um 120 - 360 tonn (votvigt), sem gæti samsvarað 30 - 90 tonnum af þurrkuðum sölvum. Þess má geta að víðar í Saurbænum eru sölvafjörur þótt þessi sé sú langstærsta.