Suðurlandsskógar eru stofnaðir með lögum frá Alþingi 17. maí 1997. Eins og segir í 1.gr. laganna er tilgangur þeirra ................. „að stuðla að ræktun fjölnytjaskóga og sjólbelta á suðurlandi ......." Lögin eru sambærileg öðrum lögum sem samin voru um landshlutabundnu skógræktarverkefnin í öðrum landshlutum. Með lögunum skuldbindur ríkið sig til að kosta skógræktarverkefnin að stærstum hluta. Þegar tekjur fara að skila sér af sölu nýviðar úr skóginum gengur hluti teknanna til ríkisins aftur. Suðurlandsskógar eru með aðsetur á Selfossi og dreifingarstöðvar í hverri sýslu. Þeir hafa á að skipa mjög hæfu og góðu starfsfólki sem annast allt skipulag, s.s. samninga við þá er annast uppeldi plantnanna, útvegun áburðar, áætlanagerð og fleira.
Útplöntun
Strax sama ár var hafist handa við útplöntun og eins og segir í fyrstu aðalfundargerð Hraunsskóga ehf, " Á árinu var plantað 2000 birkiplöntum og 490 víðiplöntum". Plönturnar voru settar í jaðar neðsta svæðisins og var ætlað að verða skjól fyrir það sem síðar átti að koma. Árið 2000 var plantað út tæpum 15.000 plöntum, 18.000 árið 2001, og síðustu árin hefur útplöntun verið um 6.000 plöntur.
Árangur
Skógurinn hefur dafnað vel og hefur 2000 árgangurinn komið mjög vel út, sérstaklega furan. Það lerki sem plantað var á fyrstu árunum hefur nær allt drepist og það sem lifað hefur er nú fyrst að taka við sér. Grenið hefur dafnað vel, en er mun seinna til en furan. Það hefur hærra lifunarhlutfall og kemur til með að dafna vel við aðstæður hér. Sum árin hefur lifunarprósentan ekki verið viðunandi og kemur það til af mörgum þáttum. Sá sem þetta skrifar er þeirrar skoðunar að aðal áhrifavaldar þess séu misjöfn gæði eða ástand plantna frá Suðurlandsskógum, sérstaklega fyrstu árin. Tíðarfar, sérstaklega þurrkar eftir útplöntum, ásamt skorti á kunnáttu þeirra sem annast útplöntunina er einnig áhrifavaldur í þessu dæmi. Landið sem plantað var í var nær allt flekkjað með TTS-herfi, en herfið rífur upp rásir fyrir plönturnar og auðveldar með því útplöntun og styrkir þær fyrir samkeppni annars gróðurs.